Síðasti sunnudagur eftir þrettánda
Má ég leggja fyrir ykkur einnar spurningar könnun?
Hefur þú einhverntíma á lífsleiðinni orðið fyrir guðlegu inngripi sem fékk þig til að sjá líf þitt í nýju ljósi og breytti stefnu þess? Vinsamlega merktu x á kvarðann hér fyrir neðan.
Sjáðu kvarðann fyrir þér sem línu sem nær þvert yfir blaðið. Vinstra megin við hana stendur orðið aldrei, hægra megin stendur oft.
Hvar myndir þú setja þitt x á kvarðann? Svari hver fyrir sig.
Í fullri alvöru væri ég mjög forvitinn að sjá niðurstöðurnar. Eitt veit ég fyrir víst. Einver ykkar myndu merkja x lengst vinstra megin, jafnvel framan við kvarðann, yfir orðið aldrei og aðrir teygja sig jafnlangt til hægri, oooft.
Ég ætla að segja ykkur sögu og ég veit að einhver ykkar fatta fljótt hvert ég er að fara.
Einu sinni fyrir langa löngu var ungur maður sem í bræði varð manni að bana. Þegar upp komst flúði hann heimaland sitt, hafðist við á fjöllum og duldist meðal hirðingja og í tímans rás varð hann einn af þeim. Hann kvæntist og stofnaði fjölskyldu. Eftir því sem frá leið minnkuðu áhyggjur hans af afleiðingum gjörða sinna. Lífið var einfalt. Dagarnir fóru í að snattast kring um rollurnar, að finna þeim haga og vatnsból og passa upp á að þær færu sér ekki að voða. Þannig liðu dagarnir og þeir urðu að árum.
Hver var maðurinn?
Ef svar þitt er Móse þá er það rétt til getið.
Á þessum kafla ævinnar hittum við hann á fjallinu Hóreb í Midíanslandi í ritningarlestri dagsins.
Hirðingjarnir sem hann bjó á meðal vissu í raun ekki hver hann var. Þar var hann kallaður Egyptinn, sem var ekki alls kostar rétt því Móse var raunar af ætt innflytjenda í Egyptalandi. Hann var Hebrei, eða Gyðingur, eins og okkur er tamara að segja.
Egyptar höfðu þá löngu áður undirokað hebresku innflytjendurna í landi sínu, þjóðnýtt þá og gert að þrælum sínum.
Það var miður dagur og sólin hátt á lofti, að venju gætti Móse fjárins fyrir tengdapabba sinn. Svosem einn af þessum dæmigerðu dögum þá sá hann allt í einu, sér til furðu á víðavangi runna í ljósum logum en virtist þó ekki verða eldi að bráð og rödd úr runnanum hrópaði: Móse, Móse! Og hann svaraði: Hér er ég!
Margir hafa spurt sig hverslags fyrirbæri þessi runni var og hann stundum útskýrður sem náttúrufyrirbæri eða ofskynjanir en það eru hundleiðinlegar pælingar. Þessi saga er ekki þess eðlis að hana eigi að setja upp í einhverskonar Excel skjal.
Þarna er lýst guðlegu inngripi sem fékk Móse til að endurskoða líf sitt, einhverju sem verður varla lýst öðru vísi en þarna er gert.
Og vitið þið hvað?
Brennandi runnar ganga ljósum logum og birtast okkur ennþá í ýmsum myndum.
Sjálfur hef ég orðið fyrir inngripi Guðs í líf mitt. Til dæmis sem ungur maður. Þá sá ég skyndilega tilveruna í nýju ljósi, fékk nýjan tilgang og ég tók nýja stefnu. Ef ég reyni að útskýra hvað það var nákvæmlega sem gerðist þá vefst mér tunga um tönn en myndin af talandi eldi úr logandi tré sem þó brennur ekki verður þá ekki svo fjarstæðukennd.
Og röddin sem talaði við Móse úr runnanum minnti hann á að jörðin sem hann stæði á væri heilög og því skyldi hann fara úr skónum.
Svipað ákall er stendur okkur nærri nú á dögum þó í annarri mynd sé. Sú rödd verður æ ágengari sem kallar á okkur viðvaranir um að jörðin sem við höfum undir fótum okkar sé heilög og viðkvæm sköpun þar sem við getum ekki traðkað á með skítugum skónum endalaust. Og hún minnir okkur á að það er löngu kominn tími til tipla á tánum því annars muni fyrirsjáanlega fara illa.
Það verkefni sem heimurinn stendur andspænis, að vinda ofan af þeim vanda sem við höfum komið okkur í og bakað komandi kynslóðum er sannarlega risavaxið, en það er víst raunhæft. Ennþá.
Kannski ætti öll prédikunin mín að fjalla um þetta brýna mál en hvað það varðar skulum við taka með okkur úr frásögunni af Móse að þó verkefnin virðist óleysanleg þá er allt hægt.
Og hvert var verkefni Móse? Við getum sagt með sanni að það hafi verið að standa með lítilmagnanum, hinum kúguðu ættmennum sínum í Egyptalandi og gera það á einfaldan og skýran hátt; Hann átti að biðja konung Egyptalands, Faraó, að sleppa þeim lausum úr þrældóminum annars hlyti hann og þjóð hans verra af. Við heyrðum að Móse þótti hann vera vægast sagt óheppilegur til verksins, stirðmæltur og stamandi, en rödd Guðs í eldinum sannfærði hann að lokum.
Móse hefði getað farið aftur heim til sinnar fjallafjölskyldu, vaknað daginn eftir og afgreitt þessa óraunverulegu upplifun sem sólsting eða eitthvað ámóta. En hann gerði það ekki og fór á Faraó fund, sem frægt er orðið.
Þegar þangað var komið sýndi Faraó honum fullkomna fyrirlitningu og hefði eflaust sent Móse fingurinn ef það hefði tíðkast í Egyptalandi hinu forna. Svo dundu yfir plágurnar eins og Móse hafði varað hann við. Þá gafst Faraó upp, lofaði öllu fögru en sveik jafnharðan hvern parísarsáttmálann á fætur öðrum um leið og plágunni létti. Vígamóður var hann í myrkrinu, með súra hafgoluna í vitunum, mýi bitinn, hagli barinn, kýlum sleginn, ropandi froskar rændu hann svefni, búfénaðurinn dauður úr pest og hungursneið í landinu, en, nei. Ekkert yrði gefið eftir, fólkið færi ekki fet og punktur. Hvað skyldi hann hafa verið að pæla? Þetta reddast?
Sagan um brennandi runnann minnir okkur á hið fornkveðna um að allt hafi sinn tíma.
Stundir sannleikans renna upp og líða hjá, sem og tími til viðbragða og dag einn kemur að því að afleiðingarnar banka á dyrnar í formi ógnar eða ávaxta eftir atvikum. Þetta á jafnt við líf okkar hvers og eins og í smærra og stærra samhengi. Ekki gera ekkert.
Löngu eftir daga Móse gengu fjórir menn á fjall, það voru Jesús og vinir hans, Pétur, Jakob og Jóhannes. Þeirra þriggja beið líka furða á fjalli.Þeir sáu í ljómanum af Jesú fortíð, samtíð og framtíð. Þarna við hlið hans voru þeir Móse og Elía og þeir heyrðu rödd Guðs sem sagði: Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann. Lærisveinarnir urðu lafhræddir. Allavega jafnhræddir og hirðarnir nóttina sem Jesúbarnið fæddist. En þá kom hann til þeirra, klappaði þeim blíðlega á öxlina og huggaði þá með sömu orðum og engillinn á Betlehemsvöllum forðum: Óttist ekki!
Og þegar þeir þorðu loksins að líta upp voru þeir með himin í augum því þeir sáu bara Jesú.
Það er vegna þessa atviks sem Jóhannes segir í guðspjallinu: Við sáum dýrð hans.
Verkefni þessara vina Jesú og allra hinna var að vera bera skin þeirrar dýrðar áfram, láta heiminn vita um son Guðs.
Hvers vegna? Því svo elskaði Guð heiminn og er ekki hættur að elska heiminn, því svo elskaði Guð þig. Ekki bara í þátíð. Guð elskar þig.
Verkefni lærisveinanna var nánast óvinnandi vegur, en það hefði verið gaman að sjá upplitið á þeim Jakobi, Pétri og Jóhannesi hefðu þeir vitað að tvöþúsund árum síðar væri enn verið að tala um þetta, jafnvel hér á hjara veraldar.
Runnarnir í lífi okkar, þessir sem láta okkur ekki í friði því þeir brenna af kærleika, réttlæti og sannleika birtast okkur með ýmsum hætti. Getur verið að þeir eigi erindi við þig? Láttu ekki eins og þeir séu ekki þarna.
Jesús er Guð með okkur. Guð með okkur í lífinu og verkefnum þess, stórum og smáum. Engin þeirra eru of smá til að hann nenni ekki að taka þátt og engin of stór til að hann veigri sér við að standa með okkur.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.