Á dögunum vorum við biskupsframbjóðendur boðnir að Pallborðinu á visir.is. Meðal annars vorum við þrjú beðin að tjá okkur um innslag í þætti Gísla Marteins sem verið hefur til umræðu á samfélagsmiðlum og kaffistofum landsins síðustu daga. Í svari mínu nefndi ég að ekki væri það alveg nýtt af nálinni að hæðst væri að krossdauða Jesú. Minntist ég meðal annars á ævafornt veggjakrot frá tímum Rómverja því til staðfestingar. Um er að ræða mynd, sennilega frá 2. öld sem rist var á vegg þar sem líklega voru vistarverur hermanna við Palatino í Róm. Hún sýnir rómverskan hermann að nafni Alexamenos, í bænastellingu. Mannveran mænir á veru með asnahöfuð sem hefur verið krossfest. Við myndina er krotað: Alexamenos tignar (eða tilbiður) guð sinn. Augljóslega er verið að hæðast að trú nefnds Alexamenosar, enda hneyksluðust Rómverjar almennt á hinum kristnu sem trúðu á þennan Jesú sem hafði verið tekinn af lífi á krossi. Að deyja á krossi var í huga þeirra smánarlegasti dauðdagi sem til var. Athyglisvert er að í sömu byggingu fannst önnur áletrun á vegg sem þýða má; Alexamenos trúir (eða Alexamenos hinn trúaði).

Þetta veggjakrot er talið vera elsta varðveitta myndræna túlkun sem hefur krossdauða Jesú að viðfangi. Ef lesendur eru á leið til Rómar er hægt að skoða hana í Museo Palatino.

Í fyrsta kafla fyrra Korintubréfs ritar Páll postuli:

Gyðingar heimta tákn og Grikkir leita að speki en við prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku en okkur sem Guð hefur kallað, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs. Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.