Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

Meðfylgjandi er mynd af lokaljóðinu í ljóðabókinni minni HVOLF. Þar er sigur páskanna mér yrkisefni. Í Mattheusarguðspjalli segir frá því að þegar Jesús gaf upp andann hafi fortjald musterisins í Jerúsalem rifnað ofan frá og niður úr. Fortjaldið huldi hið allra helgasta í musterinu og þangað mátti aðeins æðsti presturinn fara inn til fundar við Guð. Að tjaldið skyldi rifna táknar að leiðin að hjarta Guðs er opin. Gleðiboðskapur páskanna, góðu fréttirnar eru þær að við þurfum ekki að þóknast Guði til að eignast það sem okkur er þegar gefið með og í Jesú. Guð gefur af náð og þegar við mætum náð Guðs og meðtökum hana verðum við ekki söm aftur. Rifna fortjaldið tjáir að við erum elskuð frá upphafi og það eina sem við þurfum að gera er að trúa því og treysta að þetta sé sannleikur og lifa samkvæmt því.