Fjölskyldan mín
Foreldrar mínir eru Kristín Guðrúnar Torfadóttir og Brynjar Vilmundarson. Ég er yngstur. Systur mínar eru Brynja, Lára og Guðlaug og við ólumst upp í Keflavík og bjó ég í foreldrahúsum fram yfir tvítugt.
Ég er kvæntur Kamillu Hildi Gísladóttur. Hún er kennari að mennt en starfar nú sem þjónustufulltrúi hjá VIRK. Við giftum okkur 23. nóvember 1991. Börn okkar eru Kristín Gyða f. 1995, Felix Arnkell f. 1996 og Brynjar Karl f. 2003.
Kristín Gyða er gift Ólafi Inga Jónssyni. Dætur þeirra eru afa- og ömmugullin Kamilla Birta og Sóley Kristín.
Unnusta Felixar er Kinga Wakulowska. Unnusta Brynjars Karls er Eva Sigurðardóttir.
Kamilla mín (kölluð Kamí) fæddist í Eþíópíu þar sem foreldrar hennar, Katrín Þ. Guðlaugsdóttir og Gísli Arnkelsson þjónuðu sem kristniboðar í samtals 10 ár. Kamilla er yngsta barn þeirra. Systkini hennar eru Guðlaugur, Valgerður, Bjarni, Karl Jónas og Kristbjörg Kía.
Nám
Skólaganga mín í barna- og framhaldsskóla einkenndist meira af þátttöku í félagslífi en námsáhuga. Tinnabækurnar vöktu áhugann á lestri. Þær fyrstu komu út á íslensku 1972 og var ég með þeirra hjálp orðinn vel læs áður en ég byrjaði í sex ára bekk.
Í grunnskóla festi ég nánast ekki hugann við neitt nám nema íslenskugreinar og ljóð.
Ég hef einu sinni á ævinni svindlað í prófi. Það var í Biblíusögum þegar ég var ellefu ára. Upp komst um svindlið og ég fékk bágt fyrir.
Það sem stendur upp úr í skólagöngu minni á unglingsárum er þátttaka í félagslífinu, hljómsveitabrölt og síðast en ekki síst ritnefndarstörf fyrir skólablaðið Stakk. Meðal félaga sem ég tók þátt í að stofna á þeim tíma voru Félag áhugamanna um jólin og Málfundafélagið Vísundur. Skólablaðið Stakkur var merkilegt stórveldi sem ég ætla ekki að eyða meira plássi í hér en er full ástæða er til að gera betur grein fyrir því síðar.
Mér sóttist stúdentsnámið í Fjölbrautaskóla Suðurnesja seint, enda var ég aðallega í að djamma og leika mér. Ég féll margoft á mætingu, sem seinkaði námi mínu talsvert og svo hjálpaði það ekki til að ég nennti ekki að læra. Ég var samt vel virkur á öðrum sviðum. Ég spilaði í hljómsveitum, spilaði Bridge og stofnaði ásamt öðrum Bridgefélagið UFSI (skammstöfun fyrir Ungmennafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja innanhúss). Svo skrifaði ég í skólablöðin og stundaði hið ljúfa líf um helgar.
Ég tók þó við mér í náminu eftir að ég eignaðist trú á Guð, lífið og framtíðina og tók námið föstum tökum á endasprettinum.
Fyrir ótrúlega þolinmæði foreldra minna og skólayfirvalda lauk ég stúdentsprófi í desember 1988, rétt tæplega 23 ára gamall. Öllum að óvörum fékk ég verðlaun við útskriftina, en þau voru fyrir framlag til félagsmála.
Ég var í eitt ár (´89-´90) í Biblíuskólanum Fjellhaug í Osló.
Haustið 1990 hóf ég nám í Guðfræðideild HÍ sem ég lauk 1995. Lengri er námsferillinn ekki, en ég var þó að vísu í markþjálfunarnámi hjá Evolvia í einn vetur.
Prestsþjónusta
Ég var kallaður til prestsþjónustu fyrir Kristilegu Skólahreyfinguna og vígður í febrúar 1996.
Árin 1998 til 2000 bjuggum við Kamí og eldri börnin okkar á Skagaströnd þar sem ég þjónaði sem sóknarprestur og hún kenndi við Höfðaskóla.
Árið 2000 fékk ég veitingu fyrir þjónustu prests við Hjallaprestakall í Kópavogi. Þar starfaði ég með Írisi Kristjánsdóttur, sóknarpresti. Um síðustu aldamót voru ný hverfi í eystri Kópavogi í örum vexti. Þeim hverfum var þá þjónað frá Hjallakirkju. Þegar ég kom þar til starfa stóð til að nýju hverfin yrðu að sókn eftir sjö ár eða svo en svo hröð var uppbyggingin að ákveðið var að stofna þar nýja sókn þegar í febrúar 2002.
Mig langaði alltaf að fá tækifæri til að vera frumkvöðull í nýrri sókn og sótti því um sóknarprestsembættið í Lindasókn og fékk. Þar hóf ég að þjóna frá því að Lindaprestakall var stofnað 1. júlí 2002 og hef þjónað þar síðan. Fyrstu sex árin var ég eini presturinn þar en á haustmánuðum 2008 hóf sr. Guðni Már Harðarson að þjóna með mér og 14. desember sama ár var fyrsti hluti Lindakirkju tekinn í notkun og kirkjan vígð. Áslaug Helga Hálfdánardóttir, sem hefur verið mikill stólpi í safnaðarstarfinu var vígð til djáknaþjónustu við Lindakirkju árið 2015. Þriðji presturinn sr. Dís Gylfadóttir kom til starfa í lok árs 2017. Óskar Einarsson er tónlistarstjóri og stjórnar hinum margrómaða Kór Lindakirkju. Mannvalið í kringum mig hefur verið gæfa og blessun mín og safnaðarins í Lindakirkju. Þar eru snillingar á öllum póstum allt frá foreldramorgnum til fullorðinsstarfs. Ég má líka til með að nefna Margréti Unni rekstrarstjóra og Ágústu, sem sér um sal Lindakirkju. Þær eru sannkallaðir stólpar. Starfsandinn í Lindakirkju er einstakur og safnaðarstarfið fjölbreytt og skemmtilegt.