Staðreyndir um Daginn í dag!

  • Þessir 10 þættir ( 5 klukkustundir) eru í raun „stærsti“ sunnudagaskóli landsins og kenna áhorfendum samtals 10 dæmisögur Jesú sem kallast á við líf persónanna Hafdísar og Klemma í nútímanum.
  • 41 vinsæl sunnudagaskólalög eru kennd, þ.m.t. 10 hefðbundnir sálmar, bænir og margt fleira. Rauði þráðurinn er að sýna að kærleikur Krists fellur aldrei úr gildi og hvetur áhorfendur til þess að velta fyrir sér stóru spurningunum og síðast en ekki síst að koma í kirkjuna sína.
  • Þættirniar eru aðgengilegir á ýmsum stöðum en bara hjá Sjónvarpi Símans hafa þættirnir verið leigðir rúmlega 1.034.845 sinnum.

Auk þess skrifaði ég ásamt fleirum þættina:
Hafdísi og Klemma,
Tófu og Nebbanú
sem eru sívinsælir í barnastarfi kirkjunnar.

Þú ert frár

Snemma árs 2007 rak á fjörur mínar barnabókin You are special eftir Max Lucado. Ég hreifst strax af henni og fannst hún eiga erindi við unga og gamla. Ekki leið sólarhringur frá því ég las hana þar til þýðing Þú ert frábær lá fyrir. Fyrst ætlaði ég að gefa hana út sjálfur og var farinn út í samningaviðræður við útgáfuna ytra. Mér fannst það aðeins of flókið svo Guðjón Eiríksson hjá Bókaútgáfunni Hólum tók við og gaf bókina út fyrir jólin 2007. Hún var í þriðja sæti yfir bestu þýddu barnabækurnar hjá starfsfólki bókaverslana þau jólin.

Fyrsta útgáfa Þú ert frábær er löngu uppseld. Skálholtsútgáfan gaf bókina út að nýju árið 2017 og hún fæst í bókaverslunum.

Gott ráð, Engilráð!

Jólin 2023 kom út bókin Gott ráð, Engilráð! eftir Elínu Elísabetu Jóhannsdóttur Löve. Sumarið áður hafði hún samband við mig og bað mig að semja söngleik upp úr bókinni, sem ég og gerði, samdi bæði lög og texta. Óskar Einarsson útsetti. Landinn fjallaði um málið og má horfa á þá klippu á vef RÚV.

Söngleikurinn Gott ráð, Engilráð! var frumfluttur á Aðventuhátíð Lindakirkju og sýndur aftur á Jólastund fjölskyldunnar á aðfangadag kl. 16. Börn úr Lindakirkju sungu og léku og ég leikstýrði. Meðfylgjandi myndir eru frá aðventuhátíðinni.